Gildi þess að tilheyra

brain

Þegar rætt er um kosti þess að vera hluti af, að tilheyra einhverjum fyrirfram ákveðnum hugmyndum, sem mögulega kasta ljósi á hver maður er og hvað maður stendur fyrir, finn ég fyrir smæð minni. Ég held ég hafi aldrei fundist ég vera hluti af einu né neinu sem maðurinn hefur diktað upp og hef ég þó mikið reynt. Ég hef aldrei upplifað: “ég er kominn heim” -tilfinninguna. Tilfinning sem mannfólkinu þykir nokkuð eftirsóknarverð.

Þessi staðreynd í mínum veruleika hefur þjakað mig frá því að ég man eftir mér, en núna í seinni tíð, þegar árin færast yfir, og hjartað kólnar(ég veit ekkert hvort hjarta mitt sé að kólna), finnst mér þráin eftir að tilheyra, hvort sem það er föðurlandi, hlaupahóp, stjórnmálaflokk, eða hvað það er – vera að leysast upp og jafnvel að hverfa. Ég er að komast á þá skoðun að þessi hugmynd eins og svo margar aðrar hugmyndir mannskepnunnar, er bölvað bull.

Mmmmmmm, þetta kaffi er óþverri, en samt drekk ég það.

Þar sem ég fékk mér kakókaffi upp í Aka Demíu, komst ég ekki hjá að heyra ungar konur ræða um gildi þess að tilheyra ákveðinni kreðsu. Hvaða skilyrði maður þyrfti að uppfylla til að geta sagt hnakkakerrtur að maður heyrði undir hana. Hvað það þýddi og umfram allt: hverjir hefðu á henni velþóknun.

Það eina sem mér kom til hugar var að ef hausinn á okkur er klofinn í tvennt getur að líta stórmerkilegt fyrirbæri sem lítur ekki ósvipað út og blómkálshaus. Þetta fyrirbæri, sem er eins í okkur öllum, notum við í að finna út hvaða hóp er eftirsóknarvert að tilheyra til að öðlast stöðu og virðingu annarra sem eru líka með svona blómkál í hauskúpunni sinni. Heil mannsævi fer í þennan eltingarleik. Svo deyjum við.

Lífið á Íslandi

Ég vakna hress og kátur, fullur af lífsorku, von og gleði. Ég trúi á mannkynið, að ofur-gnægð af kærleik sé til í heiminum, nóg til að sigra alla illa vætti. Ég hef fyrir venju að drekka stórt glas af mjólkurkaffi meðan ég athuga hvort eitthvað spennandi hafi flætt um kapla internetsins stóra og mikla meðan ég svaf. Fyrst fer ég á vef morgunblaðsins, síðan á vísi, ef ég er í stuði athuga ég dé vaff, en enda svo með að fara sem leið liggur á eyjuna. Eftir að hafa lesið nokkur hundruð athugasemdir, langar mig til að deyja eða drepa einhvern.

En nú eru tímamót framundan. Það verða tímamót, því ég hef ákveðið að nú verði tímamót. Þannig verða tímamót til.

Nágrannakærleikur

Lífið í litla Skerjafirði væri ósköp gott ef ekki væri fyrir ömurlega nágranna. Á árum áður var ég einnig leiðindarnágranni. Svo fann ég Jesú Krist og Maríu mey, og varð í kjölfarið betri en allir aðrir. Ég varð líka dómharður og óumburðarlyndur eins og aðrir dyggir fylgjendur Jesú Krists.

Nei, nú bulla ég.

Ég hef aldrei verið aðdáandi Jesú Krists, og nú í seinni tíð aðhyllist ég ekki nein trúarbrögð. Ég er meira að segja orðinn sáttur við þá hugsun að þegar lífið er búið – þá er það búið. Allt svart. Tjaldið dregið fyrir. Takk fyrir mig. Ég lifði lífinu virtur í mínu samfélagi, eltist við almenningsálitið, en nú er þetta orðið gott og ég með alla mínar hugmyndir ætla að hætta að vera til.

Ég sé að ég er aðeins kominn út fyrir efnið. Pistillinn átti að vera um ódæla nágranna, en er farinn að líkjast meira sandkassaheimsspeki.

Hvað um það.

Um mitt árið 2000 hætti ég bæði að drekka áfenga drykki og að borða marglitar pillur sem mér þótti afskaplega gómsætar. Uppfrá því varð ég fyrirmyndarborgari. Borgari sem litið er til, þegar orð eins og tillitssemi, dyggðir, siðferði, kærleikur, – koma upp í hugann.

Sem gerir mig dómbæran á allt sem miður fer í lífi annarra.

Nágrannar mínir kunna ekki að lifa í samfélagi. Þeir eru dæmigerðir fyrir íslensku þjóðina, sem hefur í rauninni aldrei lært að lifa almennilega í búskap með öðrum. Þjóðin er hrokafull, ótillitssöm, og umfram allt þjökuð af sjálfri sér. Þegnar hennar eru einstaklingar í litlum misskemmtilegum klíkum. Þeir þurfa ekki að stoppa stóru bílana sína við gangbrautir, þagga niður í hundinum sínum sem geltir allan liðlangan daginn, lækka í tónlist, eða tóna niður fylleríshávaða eftir klukkan 12 á kvöldin. Þeir þurfa einungis að halda klíkunni sem þeir tilheyra ánægðri. Því hún uppfullir allar þeirra félagslegu þarfir. Sem gerir lífið gott og skítt með alla aðra.

Ósjálfkrafa, hversu vel þenkjandi manneskja sem þú ert, gerir þú ráð fyrir að eina rétta nálgunin á ódæla samlanda þína sé að vera durtur og ruddi sjálfur. Mikið ósköp er það nú sorglegt.

Líkur nú þessum samhengislausa pistli.

Annars er ég búinn að vera að hlera samtölin hérna hinum megin við girðinguna, og ég heyri ekki betur en að einhver sé nú farinn að halda framhjá einhverjum. Þau sem kostuðu öllu til að geta keypt draumahúsið hennar. Já, unnu myrkranna á milli til að eiga fyrir steinsteypu og Range Rover. Maður hefði nú ætlað að………

Fortíðarfauti

Á sumarmánuðunum var ég fenginn til að hafa hönd í bagga við að búa til samnorræna list. Það þarf ekki að koma neinum á óvart, ég verandi yfirlýstur áhugamaður um allt sem tengist skandinavískum kultúr. Af þessu tilefni flaug ég til Kaupmannahafnar, þar sem frappútjínóbolli kostar 1080 íslenska verðleysingja og fólk heldur uppi samræðum með að segja til skiptis flödeskumm og pölser. Sem er, einhverra hluta vegna, alltaf jafn frískandi og skemmtilegt.

Fæstir vita að kvarthluti af mér er kominn af dönskum kaupahéðnum. Afi minn var danskur spjátrungur og atvinnumerkikerti. Amma mín elskuleg, sagði mér þegar ég hitti hana í síðasta skipti, að hún hefði aldrei elskað nokkurn mann eins mikið og hann. Ekki þekki ég alla söguna, en á einhverjum tímapunkti, sneri hann baki við íslensku blómarósinni og tók sér fulla vinnu við að vera skíthæll. Til eru myndir af honum í Kóngsins Köben, reffilegur í frakka, með staf og hatt. Aristókrat er orð sem kemur upp í hugann, ég hef þó ekki hugmynd um hvað hann gerði til að framfleyta sér, og tel ólíklegt að það hafi haft eitthvað með aristókrasíu að gera. Framkoma hans á ekkert skylt við prúðmennskuna og heilindin sem sliga mína persónu. Hún er samt dæmigerð fyrir samskipti dana við íslendinga.

Aftur að ömmu.
Þegar ég sá hana síðast, fyrir tíu árum síðan, spjölluðum við lítillega um andleg málefni. Hún sagði mér að henni væri fyrirmunað að trúa því að einhver maður væri eingetinn og átti þá við hann Jesú, sem svo mikið er látið með. Hún var þó kirkjurækin kona og söng í kór Lúters drjúgan hluta ævinnar. Svo hætti amma mín að vera til í því formi sem ég kynntist henni. Ég ætla að hún geri upp málin við sinn heittelskaða á öðru tilverustigi, þ.e.a.s ef grunur minn um að allt verði svart eftir að í okkur hryglir, reynist ekki réttur.

Í Köben, þar sem flödeskumm og pölser drjúpa af hverju strái er gott að vera. Fólkið sem þar gengur göturnar er ekki of upptekið af hvoru öðru eins og hérna heima á Íslandi. Þar getur einhver eins einkennilega útlítandi og ég gengið göturnar óáreittur. Hér á Íslandi er ekki farandi út fyrir hússins dyr án þess að allir séu að stara á mann. Yfirleitt þungbrýndir, með snert af tortryggni. Ekkert persónulegt rými. Ekki koma nálægt mér! er viðmótið. Yrtu á mig og ég drekk blóð þitt eins og vín.

í Köben fann ég fyrir ég fyrir gleði. Hún var skammvinn, því ég þurfti með flugmaskínu aftur heim til stórasta lands í heimi.

Á flugvellinum keypti ég mér samloku sem kostaði formúu. Fyrir aftan mig var maður ásamt steypireið og barni. Ég sem legg ekki í vana minn að dæma annað fólk, enda sérstaklega hjartahlýr og umburðarlyndur, hugsaði: Ojjjjj, heimóttalegir Íslendingar, guði sé lof fyrir mína 1250 millilítra af konungsblóði. Ekki horfa í augun á þeim, skipaði ég sjálfum mér. Ég settist niður, gæddi mér á lokunni og beið eftir að kallað væri í flugvélina.

Í röðinni á leið út í flugvél, stend ég fyrir aftan þau. Konan heldur á barninu yfir öxl sér þannig að það snýr að mér. Ég gretti mig framan í það, eins og ég geri oft þegar næ athygli barna án vitneskju foreldra. Maðurinn, sem ég giskaði á, að væri nær fimmtugu, er glaðlegur, og spjallar við konu sína. Ekki hugsa ljótar hugsanir, brýni ég fyrir sjálfum mér. Mér finnst maðurinn eitthvað kunnuglegur, en átta mig ekki alveg á því hvaðan. Ég færi mig aðeins, til að sjá prófilinn hans betur. Ég leita að gögnum í lífrænum gagnagrunni mínum, og allt í einu kemur upp færsla sem stemmir saman við þennan mann. Innra með mér, sýp ég hveljur þegar ég átta mig á hver þetta er.

Maðurinn, gráhærður, luralegur, hokinn í baki er kvalari minn frá því í grunnskóla. Einn af meiri fautum og drullusokkum í bekknum mínum og var hann þó þéttsetinn skítaháleistum. Ég er búinn að dreyma um þessa stund. Að hitta þennan mann. Marga blauta blóði drifna ofbeldisdrauma hefur mig dreymt þar sem þessi maður þiggur af mér þung verskulduð högg. Nú er tækifærið. Loksins. Samt er ég ekki viss um hvernig ég eigi að bregðast við. Á ég að hnippa í steypireiðina og upplýsa hana um hvaða mann húsbóndi hennar hefur að geyma? Er það nógu kúl? Á ég að kippa barninu af þeim, vitandi að þessi maður á ekki að koma nálægt börnum, allavega ekki ef þankagangur hans er eitthvað í þá veru sem hann var þegar við vorum krakkar. Ó, ó, ó…. hann er búinn að koma auga á mig. Það lifnar yfir honum þegar augu okkar mætast. Er þetta ekki Sigurður Þorfinnur, spyr hann og getur ekki leynt undrun sinni. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Á ég að stökkva á hann og reyna að kyrkja hann? Þögnin er orðin það vandræðaleg, að brosið hverfur með kiprum af vörum hans. Ég er sem steinrunninn. Kaldur sem ís. Alveg svipbrigðalaus. Kuldalega segi ég: Ég er ekki Sigurður Þorfinnur, ég er Sigmundur Ernir Rúnarsson. Veistu virkilega ekki hver ég er?

Til allrar guðs lukku var hann aftarlega í vélinni meðan ég var í fremstu sætaröð með nóg af fótarými.

Síðsumargeðveiki

Nú, er halla tekur sumri, ólgar brjálæðið innan í mér. Brjálæðið kraumar alltaf þarna undir niðri, en með vísindalegum aðferðum, og er ég þá ekki að tala um efnafræði, næ ég að halda því niðri. Þessa daganna, í íslensku samfélagi, bullsýður á sálu minni, þannig að óþolið, óumburðarlyndið, pirringurinn og aðrar ódyggðir skapgerðar minnar slettast í allar áttir. Ég eiri mér ekki og langar mest til að öskra. Ég hef fengið nóg af þessu þjóðfélagi. Þessari fangaeyju út í ballarhafi, og þegnum hennar, sem hafa í gegnum tíðina lifað á ömurlegum hugmyndum um hvað það er að vera maður. Til andskotans með ykkur. Þessi ólukka sem dynur á þjóðinni er verðskulduð. Hún er til sannis um að ef þú kemur illa fram við náungann, snýst hann að lokum gegn þér. Sem er nákvæmlega það sem gerst hefur. Hégómafullu nýríku fávitar, erindrekar Íslands, skítaháleistar gúmmílýðveldisins. “#/%!#!#(!!%#!

Myndin Into the Wild hefur verið mér hugleikin síðan ég sá hana fyrir ári síðan. Myndin, eða saga myndarinnar er umdeild, og varla til sú sála sem ekki hefur einhverja skoðun á henni. Það er besta skemmtun að renna í gegnum umræður á imdb henni tengdar. Allavega skemmtilegra en að lesa innantómar hótanir/athugasemdir á eyjunni. Undanfarna daga hefur mig mikið langað til að taka “Into the Wild” á þetta líf. Hverfa sporlaust í burtu frá þessum leikarskap. Hætta að lifa eftir reglum sem eru smíðaðar af eiginhagsmuna runkkörlum sem heimta virðingu til að þeim líði eins tilvera þeirra sé einhvers virði. Stærra hús, flottari föt, fleiri háskólagráður, kraftmeiri og dýrari bíl, vera meira indí, kúl, ríkari, fátækari, massaðri, tanaðri…. Til fjandans með allar þessar vonlausu hugmyndir. Maðurinn er ekki það sem hann er í augum annarra. Hvað um það:”Into the Wild”. Ég færi af stað strax í dag ef Eddie Vedder væri fáanlegur til að fylgja mér eftir með kassagítar og syngja söngva um hvað samfélagið er sjúkt. Hann virðist geðugasti piltur, hann Eddie Vedder. Ég tæki að vísu með mér plöntubók, kort, hníf og fleira sem gæti komið sér vel í villtri náttúrunni. Hvaða villtu nattúru ég vil svo þrífast og mögulega deyja í, er svo önnur spurning. Ekki má vera of heitt og ekki of kalt.

Stundum eru dagdraumar eina leiðin til að halda sér á floti í lífsins ólgusjó.

Eddie Vedder – Society:

[media id=224]

Baktal

Lastaranum líkar ei neitt
lætur hann ganga róginn
finni hann laufblað fölnað eitt
fordæmir hann skóginn.

Höfundur:
Steingrímur Thorsteinsson, skáld

Á lægstu stigum mannlegrar tilvistar keyrir þörfin fyrir að tala illa um náungann. Einkennilegir hlutir gerast innra með mannskepnunni þegar hún japlar á kjaftasögum. Sérstakur baktalskirtill hefur framleiðslu á gúddí gúddí boðefnum sem spýtast út í lagnakerfi líkamans og veita baktalaranum góða tilfinningu. Og af því að um stund líður honum vel með sjálfan sig, dregur hann þá ályktun að baktal sé gott fyrir sálarlífið. En böggull fylgir skammrifi, og gleðin sem fylgir því að níða skóinn af náunganum, er skammvinn. Eftir situr lastarinn, með falska tilfinningu, um að í samanburði við þann sem hann nagaði, er hann verðmeiri, og tilvera hans réttari. Þessi falska tilfinning telur baktalarinn að sé staðfesting á að hugmyndir hans um lífið séu betri. Siðferðisgildin sem hann hefur tileinkað sér séu fágaðri, að hann sé fallegri, af betri ættum, betur lesnari, osfrv. En þetta er lygi eins og flest annað sem maðurinn notar til að gera sjálfan sig stærri. Sá sem er stór í raun og veru, þarf ekki að runka anda sinn í þeim tilgangi að finna meira til sín. Það eru andans dvergar sem byggja afkomu sína á hversu ömurlegur náunginn er í samanburði. Maðurinn kemur aldrei til með að komast að því hver hann er, ef hann lifir fyrir hver hann er í augum annarra. Öðrum er líka andskotans sama. Þegar hann liggur á dánarbeði sínu skiptir engu máli, hverjum fannst hvað um hann. Sjáðu fyrir þér dauðvona mann tauta um hvað þessum og hinum fannst um hann á lífsleiðinni. Andlegur glæsileiki, hlýtur að fela í sér hæfileikann að leyfa fólki að vera, án þess að leggja á það dóm.

Annars sá ég mann í bænum í dag, sem er alger fáviti.

Lífið á Íslandi

Að lifa á Íslandi er eins og að reyna að fóta sig í 103 þúsund ferkílómetra rotþró. Þú ert kannski vel búinn, í vaðstígvélum, með nefklemmu, og hefur öðlast töluverða leikni í að standa uppréttur í saur þeirra sem kúkuðu yfir landið. En svo gerist eitthvað. Eitthvað sem veldur því að þú missir einbeitinguna um stund. Kannski er það frétt um auðmann sem sleikir sólina í Karabíska hafinu, eða að eftirlætis kexpakkinn þinn kostar orðið 700 krónur í kjörbúð djöfulsins. Og þér verður svo bilt við að þú rennur til í skítnum, missir fótanna og kollsteypist í saureðjuna. Þar svamlar þú, þar til þú finnur eitthvað sem þú getur stutt þig við og notað til að staulast aftur á lappir. Tildæmis sú hugsun að föðurland og rætur séu hluti af því hver þú ert og þess vegna skítafýlunnar virði, eða að þetta fari allt á besta veg og réttlætið sigri að lokum. Hringrásin endurtekur sig, og þó þú haldir áfram að vaða annarra manna skít, veistu innst inni að þú átt eftir að hrasa aftur í sleipnum kúknum.

700 króna kexpakki

Ég var að hengja upp úr vél í gær, en það hef ég gert nokkuð oft áður á lífsleiðinni. Hvað ætli ég hafi sett í margar vélar síðan ég setti fyrst í vél? Allavega…. Þegar ég var langt kominn með þvottinn áttaði ég mig á að það liði sjálfsagt ekki á löngu þar til ég hengdi upp þennan sama þvott aftur. Og þar sem heilinn minn gefur mér sjaldan frí frá tilvistarlegum vangaveltum, fór ég að velta fyrir mér þessari hringrás, sem endurtekur sig, aftur og aftur og aftur. Ég fer í fötin, þau verða skítug á tveimur til þremur dögum, þá set ég þau í vél, þar sem þau hringsnúast í vatni og sápu, að því loknu tek ég þau út úr vélinni, hengi þau til þerris og fer svo aftur í þau. Einhverjir dagar líða og ferlið endurtekur sig. Þessi hugsun væri alls ekki svo óbærileg, ef tíminn sem ég eyði í að skíta út fötin væri ekki líka varið í samansafn af prósessum sem endurtaka sig, aftur og aftur og aftur.

Ég hefði líka getað skrifað um kreppuna og 700 króna kexpakkann sem ég keypti í 10/11.

Ólundarpistill

Nú er við hæfi að skrifa ólundarpistil:

Nágrenni mitt er blómlegt, og er ég þá ekki eingöngu að tala um garðrækt. Sunnan megin við mig eru hjón, eða ég giska á að þau séu hjón, sem hafa sérstakt dálæti af amerískri sveitatónlist þegar þau fá sér í aðra tánna, og ef fleiri tær bætast við hækkar hljóðstyrkurinn og sama lagið sem er:”svo æðislegt”, er spilað aftur, aftur og aftur. Ef þau eru búin að innbyrða meira en ráðlagðan dagskammt af áfengi, villist Björgvin Halldórsson undir nálina og þau gelta af gleði og syngja með. Voff, voff, voff – ég er ennþá þessi asni sem þú kynntist þá, skríkir í þeim. En enginn í nágrenninu deilir með þeim kátínunni. Ef þau hefðu einhverja hugmynd mitt í gleðinni, hversu hötuð þau eru klukkan 3 aðfaranótt mánudags, þá…. Nei, þeim er skítsama, og það er nákvæmlega það sem einkennir þessa kynslóð af íslenskum durgum – henni er andskotans sama. Aðlaðandi!

Austan megin við mig býr fólk sem ég kann engin deili á. Ég veit ekki einu sinni almennilega hvernig það lítur út. Stór viðargirðing, tveir metrar á hæð aðskilur húsið mitt frá garðinum þeirra og er u.þ.b hálfur metri á milli girðingar og hússins. Þegar haldin er fjölmenn gildi, sem standa yfir langt fram undir morgun, safnast reykingarfólkið saman úti. Svo skemmtilega vill til að það er þá staðsett við hliðina á baðherbergisglugganum mínum. Ég þarf því ekki annað en að opna gluggann meðan ég er að gera pú pú og þá heyri ég allt sem þar er skrafað. Með að hlusta, og veit ég ekki hvort þetta séu endilega þau sem búa þarna, þá hef ég lært eftirfarandi:

#1 – Það er mjög kvalarfullt að láta vaxa á sér rassaboruna.
#2 – Ef að maður er með gyllinæð, þá vill maður síður láta rimma sig.
#3 – Betra er að rimma, en vera rimmaður.

Og nokkrum dögum fyrr heyrði ég skemmtilegt samtal manns, við gifta konu. Í samtalinu kom fram að þau hefðu verið saman í bekk, hvort það var í grunnskóla, eða menntaskóla, fylgdi ekki með. Safaríkasti hlutinn var eitthvað á þessa leið:

Hann: Þú varst sætasta stelpan í bekknum!
Hún: Nú?
Hann: Já, þú varst sætust og við strákarnir vorum allir skotnir í þér!
Hún: Ehhh..
Hann: Þetta er satt. Við vorum vitlausir í þig. Ég líka!
Hún: Nú, nú, ehhh..
Hann: Já… og það skrýtna er – að að þú hefur ekkert breyst!

Ég hlustaði ekki mikið lengur á þetta samtal, enda búinn að gera pú pú, en ég sá hann fyrir mér standa þarna gleiður meðan hann þreytti fórnarlambið. Hvort hann hafi farið einsamall heim, er hverjum og einum frjálst að ímynda sér.

Fyrir norðan mig í aðalhúsinu búa kona og karl sem ég hef áður gert grein fyrir hér á vefsíðu minni. Karlinn kom í heimsókn síðasta vetur í þeim tilgangi einum að lækka niður í ofnunum mínum til að ofnarnir hans yljuðu honum betur. Ég vissi þá strax, að honum vildi ég kynnast betur.

Allt eru þetta íslendingar, en oft er gaman að bera þá saman við útlendinga þegar kemur að mannasiðum. Landar mínir virðast ekki eiga til stórt upplag af prúðmennsku og virðingu fyrir náunganum.

Hinum megin við götuna í stóru fallegu húsi búa Pólverjar. Eitt kvöldið héldu þau veislu og sátu úti í garði, drukku og borðuðu góðan mat. Undir dundi hræðilega leiðinleg diskótónlist. Á slaginu klukkan 10 um kvöldið, hætti tónlistin, og gestirnir hjálpuðust við að taka til eftir gleðina.

Og hér með líkur þessum ólundarpistli.

[media id=222 width=520 height=300]

Íslenskir durgar

Hið ylhýra fallega móðurmál er þessa daganna mestmegnis notað í að tjá leiðindi, og þá alveg án þess að stuðst sé við fegurri orð íslenskrar tungu sem eru: kúkur og rass, enda það orð sem hinir svokölluðu páverbloggarar forðast að nota af ótta við að þeir þyki ekki nógu málefnalegir.

Reglulega gaman væri að taka saman ólund samlanda minna í rituðu máli og athuga hversu mikið hún vegur í gigabætum. Gigabæt af texta er óhemjumikið af fúkyrðum. Sem fyrri daginn er google leitarvélin, góð í að taka púlsinn á Jóni og Gunnu. Eitt leitarorð umfram öll önnur, stendur ekki fyrir neitt nema tæra ómengaða angist, reiði og brostnar vonir og er það orðið: icesave, en það skilar 89,300 niðurstöðum á blog.is, sem er mekka óhamingjunnar. Á eyjunni kemur orðið fyrir 14,500 sinnum, og ef leitað er á öllum vefsíðum sem hafa punktur is endingu, þá telja niðurstöður 406,000 síður. Já, það ætti að vera regulega gaman að lesa sig í gegnum það og aldrei að vita nema ég noti sumafríið til þess. Til gamans má geta þá kemur orðið rass fyrir á 66,200 síðum og kúkur 18,400.

Annars átti þessi pistill upphaflega að vera um íslenska durga, en sá efniviður bíður betri tíma.

Síðasta hugsunin fyrir dauðann

Nú er ægileg kreppa í landinu mínu. Ég sé mig því tilneyddan til að skrifa pistil sem vekur von í brjóstum fólks. Hér er hann:

Dauðinn, dauðinn, dauðinn. Er til fegurra orð í íslenskri tungu? Hvar verð ég þegar ég ligg banalega, að því gefnu að ég verði liggjandi þegar dauðinn tekur mig í faðm sér.

Þegar ég vil létta lund mína, og mæli ég með þessu við hvern þann sem er dapur í hjarta sínu, – þykir mér fátt skemmtilegra en að renna í gegnum nokkrar krassandi samræður úr flugritum véla sem hafa brotlent og kostað alla um borð lífið. Það er eitthvað heillandi við síðustu orð manna sem átta sig á að innan skamms – muni þeir deyja. Viðbrögðin eru mismunandi. “Þetta er allt og sumt! Andskotinn!” hrópar einhver í rússnesku flugi og 23 sekúndum síðar springur vélin í tætlur yfir síberísku skóglendi.

Áhafnarmeðlimur í annarri flugvél – skrúfuvél með 29 farþega um borð – gerir sér grein fyrir að allar tilraunir félaga sinna til að bjarga vélinni eru til einskis. Síðasta sem hann hugsar og segir er: “Amy! Ég elska þig!” Nokkrum sekúndum síðar brennur vélin upp í eldhafi með þeim afleiðingum að allir um borð deyja.

“Jæja, þetta er búið. Ég er dauður!” segir flugvirki sekúndu áður en hann og 187 manns láta lífið í nauðlendingu í Paramaribo, Surinam.

Í kóreskri farþegaþotu sem flaug óvart inn fyrir rússneska landhelgi og var skotin niður 1983, deyja allir nær samstundis. Flugritinn nemur rödd í hátalarakerfi vélarinnar, sem virðist vera af segulbandi: “Slökkvið í sígarettunum og spennið beltin,” og svo að síðustu: “setjið grímuna yfir nef og munn.” Tilmælin eru svo endurtekin, þar til vélin hverfur í Japanssjó.

Síðustu orðin. Síðustu hugsanirnar.

Eitt af því sem heillar mig meira en nokkuð annað í lífinu er sú vitneskja að á einhverjum tímapunkti í minni tilveru geyspa ég golunni. Lífið stefnir allt að þessum punkti. Hvernig er hægt annað en að vera bergnuminn af hrifningu yfir þessum mesta leyndardómi lífsins.

Um daginn hlustaði ég á útvarpsviðtal við Alfreð Flóka á sýningu honum tileinkuð. Í viðtalinu er hann spurður hvort hann hugsi mikið um dauðann, hann svarar því til að þannig menn hljóti að vera hálfdauðir sjálfir. Á sömu sýningu má sjá blaðaviðtal með eftirfarandi úrdrætti: “Hugsa mikið um dauðann.” Hann hefur því að öllum líkindum eitthvað spáð í þessu þegar nær dróg.

Hvar verð ég? Hvað mun ég hugsa á þessari stundu?

Þessar spurningar láta mig ekki í friði. Hálft í hvoru langar mig að skrifa að ég geti ekki beðið, en ég læt það eiga sig því flestir lifa eftir þeim hugmyndum að dauðann beri að taka hátíðlega, og að öll umræða um hann verði að fara fram hvíslandi.

Föðurhlutverk

fossvogskirkjugardur

Ég og ellefu ára gömul dóttir mín fórum um helgina á sýningu hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, sem okkur þótti frekar fátækleg. Hvað um það. Svo settumst við niður á Cafe Paris og hún pantaði sér Egils Gull og ég mjólkurkaffi. Henni varð þó ekki að ósk sinni, en fékk heitan súkkulaðidrykk með rjóma, og nokkuð myndarlega tertusneið. Ég bað um svokallaða pönnukökuveislu með kaffinu mínu, sem samanstóð af þremur upprúlluðum pönnukökum og smá rjómaklessu. “2463.- krónur takk,” sagði Cafe Paris, “vinsamlegast borgið á barnum á leið ykkar út.”

Eftir göngutúr um miðbæinn, með viðkomu í Eymundsson, keyrðum við upp í Öskjuhlíð og ég lagði til að við fengum okkur göngutúr um kirkjugarðinn. “Afhverju er skemmtilegt að fara í kirkjugarðinn?” spurði dóttir mín alveg undrandi á gamla manninum. Og ég sem hefði kannski átt að taka mér örlítið lengri tíma í að upphugsa svar við spurningu hennar, útskýrði fyrir henni að gamanið fælist í því að við værum sprellilifandi meðan fólkið í garðinum væri allt dautt.

Ég verð að segja mér til málsbóta að fram að þessari stundu var ég búinn að standa mig nokkuð vel í föðurhlutverkinu. Ég var tildæmis búinn að uppfræða hana um hver Hörður Torfa væri og hvernig hann hefði barist fyrir réttindum samkynhneigðra(það var mynd af honum á ljósmyndasýningunni). Einnig var ég búinn að miðla til hennar hagnýtum upplýsingum eins og að maður eigi aldrei að hrækja þar sem gangandi fólk kemur mögulega til með að leggja leið sína. Með því að passa sig á hvar maður hrækir, sýndi maður öðru fólki virðingu sína.

Það að skemmtilegt sé að vera í kirkjugarðinum, út af þessum andstæðum, var ég svo sem búinn að hugsa nokkrum sinnum á heilsuskokki í gegnum garðinn. Eitthvað á þessa leið: Hér hleyp ég, heilbrigður, með fulla hreyfigetu, meðan allt þetta fólk liggur í moldinni steindautt – einhvern tímann mun ég liggja dauður á kistubotni, þ.e.a.s ef ég mun eiga fyrir útförinni. En það var ekki þess vegna sem ég vildi fara með telpunni minni í göngutúr um garðinn. Mér hefur alltaf fundist garðurinn heillandi. Á bakvið hverja áletrun og hvert ártal er saga einhvers sem einhvern tímann lifði. Einhver sem fæddist frjáls inn í þennan heim, týndi frelsinu þegar hann eltist og eyddi lífinu í að leita að því. Eða hugsaði kannski aldrei á þessum nótum. Vann mögulega bara myrkranna á milli, efaðist aldrei um tilveru sína, var sáttur ef hann gat séð fyrir sér og sínum og spurði aldrei neinna spurninga. Ólíkt mér, sem geri ekki annað en að spyrja spurninga – alveg þar til ég ærist: Afhverju dó þessi ungur? Hvernig var lífið á Íslandi á þeim tíma sem þessi fæddist? Hvað var hann gamall í seinni heimstyrjöldinni? Hefur þessi verið harður húsbóndi? Ætli kona þessa manns hafi elskað hann? Osfrv.

Dóttur minni fannst hinsvegar sú hugmynd að gaman væri að vera lifandi meðan allir aðrir væru dauðir – mjög fyndin. Hún hafði aldrei hugsað svona um dauðann. Í hennar huga var dauðinn bara sorglegur, hún vissi ekki að hann gat líka verið fyndinn.